Um mig
Það má segja að áhugi minn á næringu og heilsu hafi sprottið fram vegna eigin heilsufarsáskorana. Það var árið 2007, þá í framhaldsnámi í Bandaríkjunum, að ég missti nokkuð óvænt alla orku og ýmis heilsufarsvandamál fóru að gera vart við sig. Þrátt fyrir margar læknisheimsóknir voru flest einkennin læknunum hulin ráðgáta. Eitt þótti þó ljóst: Ég var með vanvirkan skjaldkirtil. Ég taldi þá að ég hefði fundið rót vandans, en því miður reyndist það aðeins hluti af stærri mynd.
Þar sem ég er forvitin að eðlisfari og hef sterka þörf fyrir að skilja hlutina, hóf ég að rannsaka eigin heilsu út frá ólíkum sjónarhornum. Ég áttaði mig fljótt á því að það sem ég borðaði hafði gríðarleg áhrif á líðan mína. Þá heillaðist ég af aðferðafræði functional medicine, þar sem lögð er áhersla á samspil og tengsl ólíkra kerfa líkamans. Áhugi minn á fræðunum varð síðan til þess að ég skráði mig í BSc (Hons) nám í næringarþerapíu við Institute for Optimum Nutrition (ION) í Bretlandi.
Námið og eigin reynsla hafa kennt mér að heilsa byggist á mörgum samverkandi þáttum. Í dag nýtist þessi heildræna sýn mér í starfi sem næringarþerapisti, þar sem ég styð fólk í vegferð sinni að bættri heilsu.
Ég er meðlimur í BANT (British Association for Nutrition and Lifestyle Medicine), sem tryggir að ég starfi samkvæmt háum faglegum stöðlum og nýjustu vísindalegum leiðbeiningum í næringarþerapíu.
Að horfa á líkamann sem eina heild er að mínu mati grundvallaratriði þegar kemur að betri heilsu. Ójafnvægi á einum stað hefur oft marga anga sem þarf að hlúa að til að ná sem bestum árangri.
Ég legg metnað minn í að veita faglega og einstaklingsmiðaða þjónustu þar sem heilsufarsáskoranir eru skoðaðar út frá heildrænni nálgun. Með því að rýna í einkenni, mataræði, lífsvenjur, fjölskyldu- og sjúkrasögu, fæ ég dýrmætar vísbendingar um ójafnvægi í líkamanum og næringarþarfir hvers einstaklings. Einnig nýtist ég við ýmis functional próf sem geta verið mjög hjálpleg við leitina að undirliggjandi vanda. Má þar nefna próf sem geta gefið vísbendingu um orsök orkuleysis, bólgu í líkamanum, meltingarvandamála, hormónatengdra vandamála og erfðabreytileika (SNPs).
Ég trúi því að með samvinnu, samkennd, fagþekkingu og heildrænni sýn sé hægt að styðja einstaklinga á áhrifaríkan hátt og stuðla að varanlegri heilsu og vellíðan.

