Áhrif ketó mataræðisins á einstaklinga með vanvirkan skjaldkirtil
Ég hef fengið dálítið af fyrirspurnum varðandi niðurstöður rannsóknar sem ég gerði á áhrifum ketó mataræðis á einstaklinga með vanvirkan skjaldkirtil. Rannsóknin var lokaverkefni mitt í BSc-námi við Institute for Optimum Nutrition. Hér á eftir má finna samantekt á rannsókninni.
Ketó mataræðið hefur notið vaxandi vinsælda undanfarin ár sem meðferð við ýmsum heilsufarsvandamálum. Rannsóknir á áhrifum ketó mataræðis á heilsu og líðan einstaklinga með vanvirkan skjaldkirtil eru þó enn takmarkaðar.
Skiptar skoðanir hafa verið meðal sérfræðinga um hvort mataræðið sé gagnlegt eða jafnvel skaðlegt fyrir einstaklinga með vanvirkan skjaldkirtil. Efasemdir byggjast oft á rannsóknum sem hafa gefið til kynna að skjaldkirtilshormónið T3 lækki þegar fólk neytir lítils magns kolvetna, en T3 er virka skjaldkirtilshormónið sem frumurnar nota til að stjórna efnaskiptum, orku og líðan. Þessar niðurstöður hafa sumir túlkað þannig að lágkolvetna mataræði sé ekki ráðlegt fyrir fólk með vanvirkan skjaldkirtil, á meðan aðrir telja að lækkun á T3 sé eðlilegt aðlögunarviðbragð líkamans og ekki skaðlegt.
Hvernig framleiðir líkaminn T3?
Skjaldkirtillinn framleiðir aðallega skjaldkirtilshormónið T4 (óvirkt) og minna magn af T3 (virkt).
Líkaminn umbreytir T4 í T3 með hjálp ensíma sem kallast deiodinasar, eða DIO-ensím.
DIO-ensím eru lykilprótein sem stjórna því hversu mikið virkt skjaldkirtilshormón líkaminn fær.
DIO1 og DIO2 umbreyta T4 í virkt T3.
DIO3 brýtur hormón niður í óvirk form, til dæmis reverse T3 (rT3).
DIO-ensímin eru afar næm fyrir breytingum í líkamanum og aðlagast fljótt aðstæðum. Þau bregðast meðal annars við streitu, bólgum, næringu og breytingum á insúlínmagni.
Hvaða breytingar verða á skjaldkirtilshormónum á ketó?
Insúlín örvar virkni DIO1 og DIO2.
Þar sem kolvetnainntaka er lítil á ketó mataræði sveiflast blóðsykurinn minna með þeim afleiðingum að insúlín lækkar og verður stöðugra.
Þar af leiðandi minnkar virkni DIO-ensímanna sem leiðir til lægra T3.
En lykilspurningin er: Þýðir lægra T3 endilega verri líðan?
Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort ketó mataræði tengdist bættri líðan og færri einkennum hjá fólki með vanvirkan skjaldkirtil, út frá þeirra eigin upplifun. Framkvæmd var rafræn spurningakönnun og uppfylltu 99 þátttakendur skilyrði þess að vera 18 ára eða eldri, greindir með vanvirkan skjaldkirtil og hafa prófað ketó mataræði á síðustu fimm árum.
Metin voru sex algeng einkenni: Orka, melting, skap, kvíði, kuldaóþol og húðþurrkur.
Helstu niðurstöður
Meirihluti þátttakenda greindi frá bættri orku (67%), betra skapi (57%) og bættri meltingu (57%). Hóflegur bati kom fram í kvíða (38%) og húðþurrki (34%). Kuldaþol sýndi minnsta hlutfall bata (28%) og var jafnframt það einkenni sem flestir töldu óbreytt (46%). Versnun einkenna var almennt lítil og mældist á bilinu 12–19% eftir einkennum.
Aðeins 33% þátttakenda fylgdu ketó mataræði þegar könnunin var lögð fyrir, en 66% höfðu prófað mataræðið áður en hætt á því. Þeir sem voru á ketó mataræði á rannsóknartímanum greindu frá meiri bata í öllum sex einkennum, á meðan þeir sem höfðu prófað mataræðið áður voru líklegri til að upplifa engar breytingar eða versnun einkenna.
Af siðferðilegum ástæðum var ekki hægt að spyrja nánar út í önnur heilsufarsvandamál eða ástæður þess að fólk hætti á mataræðinu. Áhugavert væri þó að kanna hvort einkenni eða heilsufarsáskoranir sem ekki var tekið tillit til í rannsókninni spiluðu þar inn í, eða hvort strangt og takmarkandi eðli mataræðisins, hafi haft þar áhrif.
Ályktun
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að ketó mataræði tengist jákvæðum breytingum á einkennum vanvirks skjaldkirtils, einkum hvað varðar orkustig, meltingu og skap. Til að staðfesta þessar niðurstöður og geta veitt skýrar ráðleggingar er þörf á vel hannaðri samanburðarrannsókn þar sem fleiri breytur eru teknar með í reikninginn.
Í heild sinni bendir rannsóknin þó til þess að ketó mataræði geti verið gagnlegt verkfæri til að bæta einkenni vanvirks skjaldkirtils. Mikilvægt er þó að hafa í huga að hver einstaklingur er einstakur og nauðsynlegt að kynna sér málin vel út frá öðrum undirliggjandi þáttum og hlusta á líkamann þegar nýtt mataræði, eins og ketó, er prófað.

